Uppskera / Growing Roots

Uppskera er samstarfsverkefni GETU samtaka og Hafnarfjarðarbæjar.

Fjölskyldur rækta saman

Fjölskyldur fá úthlutað ræktunarreitum í fjölskyldugörðunum við Víðistaðatún þar sem þau hjálpast að við ræktunina undir handleiðslu garðyrkjufræðings og með stuðningi frá starfsmönnum og sjálfboðaliðum GETU.

Haldnir eru vikulegir fundir í görðunum þar sem þátttakendur fá ráðgjöf, spjalla og njóta samvista hvert við annað. Með reglulegu millibili eru haldnir viðburðir og fræðsluerindi m.a. um holla lifnaðarhætti, jákvæð áhrif hreyfingar og útiveru, sem og ræktun og eldun grænmetis.

Ólíkir hópar mætast

Við val á þátttakendum er sérstaklega horft til þess að blanda saman fjölskyldum af ólíkum uppruna; heimamönnum, innflytjendum og flóttafólki, sem saman vinna að því að rækta grænmeti, vináttu og holla lifnaðarhætti. Með flóttafólki er átt við þau sem hafa hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi.

Árið 2025 var verkefnið styrkt af Lýðheilsusjóði og samfélagssjóði HS orku, en það var einnig hluti af alþjóðlega verkefninu Resilient cities, healthy people sem er styrkt af Evrópusambandinu.

Garðheimar hafa frá upphafi styrkt verkefnið með veglegum gjöfum til þátttakenda.